Guðni var í viðtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í dag eftir að leikmannahópur íslenska liðsins var kynntur fyrir undankeppni Evrópumótsins. Þar var hann spurður út í ásakanir Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur á hendur KSÍ um að vita af kynferðisbrotum íþróttamanna innan sambandsins án þess að viðhafast í málinu.
Þegar liðið var skipað núna, hafið þið þurft að líta til sögusagna eða annars slíks þegar þið eruð að velja lið?
„Það má segja að eitthvað í kringum þessi mál hafi beint og óbeint blandast inn í einhverjar vangaveltur varðandi þetta verkefni sem fram undan er, án þess að hægt sé að tjá sig eitthvað frekar um það. Þessi mál eru líka dálítið þess eðlis að við getum ekki sagt allt sem myndi kannski skýra eitthvað og svo framvegis. Við allavega verðum bara að halda okkar striki og þeir gera það auðvitað þjálfararnir,“ sagði Guðni.
„Við viljum auðvitað hafa þessa hreyfingu okkar án ofbeldis,“ sagði Guðni.
Guðni sagði að svör Hönnu Bjargar við yfirlýsingu KSÍ hafi ekki endilega verið málefnaleg. Þar sagði Hanna Björg fullum fetum að Guðni væri að segja ósatt þegar hann segðist ekki hafa frétt af umræddum málum.
„KSÍ sýnir engan vilja til að axla ábyrgð, enga auðmýkt, samkennd, tengsl við raunveruleikann og sannleikann. Auðvitað vissu Guðni og forysta KSÍ af umræddu kynferðisofbeldi. Það eru of mörg sem vita að Guðni segir ósatt í yfirlýsingunni til að unnt sé að halda öðru fram,“ skrifaði Hanna í grein á Vísi.
Guðni segir hins vegar að dyr KSÍ séu alltaf opnar fyrir alvarlegum ábendingum í ætt við þessar; og að þá sé tekið á þeim.
Hér má sjá lengra viðtal við Guðna Bergsson:
Hér má sjá svör landsliðsþjálfarana um málefnið á blaðamannafundinum í dag: