Hann segir að Talíbanar séu ofstækisfólk, þeir túlki Kóraninn á þann veg að karlmenn eigi að fara með öll völd og að konur eigi ekki að hafa nein réttindi.
Hann segir að Talíbanar telji að aðrir en múslimar séu réttdræpir og að það réttarfar sem þeir vilja sé mjög harkalegt. Til dæmis telji þeir að þeir sem gerist sekir um guðlast skuli drepnir.
Þá segir Árni að undir stjórn Talíbana myndu konur, sem er nauðgað af karlmönnum, vera drepnar enda telja Talíbanar að nauðgun sé konunni að kenna.
Undantekning ef konur mega mennta sig
Árni segir að undir stjórn Talíbana megi afganskar konur ekki ganga menntaveginn nema upp í sjötta bekk grunnskóla. Þó séu gerðar undantekningar og örfáum konum leyft að mennta sig til að verða kennarar eða læknar að öðru leiti fái þær ekki að mennta sig.
Hann segir líklegt að konur sem starfa í American University of Afghanistan verði drepnar ef Talíbanar ná völdum í Afganistan. Árni segir ekki ólíklegt að fjölskyldur þeirra yrðu einnig drepnar.
Fer ekki aftur til Afganistan
Árni hefur starfað í Kabúl í þrjú ár en hann segist ekki munu fara aftur til Afganistan eins og staðan er núna. Hann segir að sex erlendir starfsmenn American University of Afghanistan séu enn í Kabúl en að unnið sé að því að koma þeim úr landi. Skólasvæðið sé almennt mjög vel varið en ekki sé talið að unnt sé að tryggja öryggi útlendinga.
Skólinn sé eina verkefni Bandaríkjamanna sem hefur gengið upp
Árni segir að American University of Afghanistan sé eina verkefni Bandaríkjamanna í Afganistan sem hefur gengið. Hann segir öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum hafa játað að svo væri.
Skólinn hefur menntað þúsundir Afgana en Árni segir að það sé ekki nóg og að nauðsynlegt sé að styðja Afgana betur í baráttunni við Talíbana.