Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni, í svari til fréttastofu. Dagsetningin mun liggja endanlega fyrir á næstu dögum en börnunum verður boðið að fá bóluefni Pfizer/BioNTech. Mbl.is greindi fyrst frá.
„Í ljósi þess að við verðum að gefa örvunarskammta 16. til 19. ágúst þá liggur beint við að bólusetja börn þarna á eftir,“ segir Ragnheiður.
Sóttvarnalæknir hefur beint þeim tilmælum til heilsugæslunnar að undirbúa sig undir bólusetningu barna á þessum aldri. Áður var gert ráð fyrir að bólusetning þessa hóps færi fram í skólum og forráðamenn myndu þurfa að óska sérstaklega eftir bólusetningu barna sem eru ekki með undirliggjandi áhættuþætti.
Síðustu daga hefur heilsugæslan einna helst bólusett kennara sem fengu Janssen bóluefnið með örvunarskammti.