Handbolti

Frakkar í úrslit á fjórðu Ólympíuleikunum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Karabatic er kominn í enn einn úrslitaleikinn með franska landsliðinu.
Nikola Karabatic er kominn í enn einn úrslitaleikinn með franska landsliðinu. epa/TATYANA ZENKOVICH

Frakkland er komið í úrslit í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir sigur á Egyptalandi, 27-23.

Þetta er í fjórða sinn í röð sem Frakkar komast í úrslit á Ólympíuleikunum. Þeir urðu Ólympíumeistarar 2008 og 2012 en töpuðu fyrir Dönum í úrslitaleiknum 2016.

Staðan í hálfleik var jöfn, 13-13, en í seinni hálfleik voru Frakkar sterkari. Þeir léku öfluga vörn og Vincent Gerard varði vel í markinu.

Í stöðunni 18-18 skoraði Frakkland þrjú mörk í röð og leit ekki um öxl eftir það. Egyptaland átti í miklum erfiðleikum í sókninni og skoraði aðeins tíu mörk í seinni hálfleik.

Þegar uppi var staðið munaði fjórum mörkum á liðunum, 27-23, og Frakkar því komnir í úrslit. Þar mæta þeir sigurvegaranum úr leik Dana og Spánverja sem hefst á hádegi.

Örvhentu skyttur Frakklands, þeir Nedin Remili og Dika Mem, voru í miklum ham og skoruðu samtals sextán mörk, Remili níu og Mem sjö. Nikola Karabatic og Hugo Descat skoruðu fjögur mörk hvor. Gerard varði tæplega tuttugu skot í franska markinu.

Yahia Omar skoraði sex mörk fyrir Egyptaland og Ali Zein og Yehia El-Deraa sitt hvor fimm mörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×