Eriksen hneig niður í leik liðanna 12. júní síðastliðinn og fór í hjartastopp. Samherjar hans í danska landsliðinu mynduðu þar hring í kringum hann á meðan starfsfólk á vellinum framkvæmdi á honum fyrstu hjálp og þurfti stuðtæki til að lífga Eriksen við á miðjum vellinum.
Hann eyddi í kjölfarið viku á sjúkrahúsi þar sem græddur var í hann bjargráður auk þess sem hann gekk undir fjölda rannsókna til að greina orsök hjartastoppsins.

Eriksen kom til Mílanó í dag og fréttir AP-fréttastofunnar herma að hann hafi þegar átt fund með Giuseppe Marotta, framkvæmdastjóra Inter.
Samkvæmt reglum á Ítalíu má sá danski ekki spila þar með slíkan hjartabúnað græddan í sig. Búist er við að hann muni næstu vikur ganga undir frekari rannsóknir til að finna orsök hjartastoppsins og ákvarða næstu skref er varða meðferð og meðhöndlun.
Ekki er búist við honum aftur á fótboltavöllinn fyrr en eftir hálft ár hið minnsta, en verði bjargráðurinn áfram í Eriksen má hann til að mynda spila á Englandi og í Hollandi þar sem aðrar reglur gilda en á Ítalíu.