Blíðskaparveður hefur verið á norður- og austurhluta landsins síðustu vikur, á meðan hefur verið heldur lágskýjað á höfuðborgarsvæðinu. Margir Íslendingar hafa flykkst þvert yfir landið til þess að elta sólargeislana og eru fullbókuð tjaldstæði til vitnisburðar um það.
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir þó spá næstu viku sýni fram að bjartari daga og hækkandi hitatölur á höfuðborgarsvæðinu, á meðan kólna fer á norður- og austurlandi.

„Það er ágætis breyting frá því sem verið hefur fyrir okkur sem erum hér á suðvesturhorninu að sjá til sólar aftur. En það verður hins vegar svona þungbúnara og grárra veður komið á Norður- og Austurland. Enda eru þeir búnir að fá rúman mánuð af góðu veðri þannig það er nú alveg kominn tími á að þeir fari að skila einhverju til okkar aftur.“
Enn sé of langt í verslunarmannahelgi til þess að veðurspáin fyrir hana sé traust, en útlit sé fyrir frekar rólegt veður um land allt. Ekkert óveður sé í kortunum.