Í kvöldfréttum í gær greindum við frá því að Íbúðafélagið Bjarg hefur gert langtímasamning við Húsnæðis-og mannvirkjastofnun um ný lán til að fjármagna uppbyggingu á þúsund nýjum íbúðum og fimm hundruð íbúðum sem þegar hafa verið byggðar. Á grundvelli samningsins hyggst leigufélagið Bjarg lækka leigu hjá öllum leigutökum sínum um tíu til fimmtán prósent.
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að fleiri óhagnaðardrifin leigufélög fái svipuð kjör og Bjarg.
Skilyrði að leigutakarnir njóti góðra kjara
Eru mörg óhagnaðardrifin leigufélög sem munu fá svipuð kjör og Bjarg?
„Það eru margir þátttakendur í þessu almenna íbúðarkerfi og í raun og veru allir félagslegir leigusalar geta fengið þessa fjármögnun hjá okkur. Það er í raun og veru bara skilyrðið að þeir láti síðan leigutakana njóta þessara góðu kjara.“
Búist þið við mörgum umsóknum í framhaldinu?
„Við erum bara jafnt og þétt með uppbyggingu og uppbygging í almenna íbúðarkerfinu hefur verið mikil á undanförnum árum og við búumst við því að hún haldi áfram.“