Forstjórinn fyrrverandi flúði ákærur um fjárglæpi í Japan þegar hann gekk laus gegn tryggingu en hann hafði áður setið í fangelsi. Hann flúði til Beirút í Líbanon með viðkomu í Istanbúl í Tyrklandi undir lok árs 2019.
Ljóst er að flótti Ghosn var nokkuð dramatískur en í viðtali við BBC sem birtist í dag fer hann í smáatriðum yfir það hvernig honum tókst að flýja frá Japan. Hann hafði verið í haldi yfirvalda í Japan í um eitt ár, fyrst í fangaklefa en síðar í stofufangelsi.
Kornið sem fyllti mælinn
Hann segir að skilaboð þess efnis að hann mætti ekki lengur eiga í samskiptum við eiginkonu sína í stofufangelsinu hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Augljóst er að flóttinn var þaulskipulagður.
„Það var ljóst að ég þyrfti að fela mig einhvern veginn,“ segir Ghosn í viðtali við BBC. „Eina leiðin fyrir mig til þess að fela mig var í einhvers konar tösku svo að enginn gæti séð mig.“
Segir hann að hljóðfærakassi sem yfirleitt er notaður til að þess að ferja hljóðfæri á öruggan máta á milli landa hafi snemma komið til greina sem felustaður.
Segist Ghosn hafa reynt að haga sér á eins venjubundinn hátt í aðdraganda flóttans. Hann klæddi sig í venjuleg föt og tók lest til Osaka frá Tókýó. Þar skaust hann inn á hótel þar sem kassinn beið.
„Þegar maður er í kasssanum hugsar maður ekki um fortíðina, maður hugsar ekki um framtíðina, eingöngu um það sem er að gerast á því augnabliki,“ segir Ghosn.
Eyddi einum og hálfum tíma í kassanum
Hann segist hafa verið mjög einbeittur á flóttanum, þar sem hann hafi litið á þetta sem sitt eina tækifæri til þess að losna undan yfirvöldum í Japan.
„Þetta er tækifærið, þetta má ekki klikka. Ef þetta mistekst þá er þetta búið spil. Það eina sem bíður er líf fangans í Japan,“ segist Ghosn hafa hugsað með sér í kassanum.

Hann telur sig hafa eytt um einum og hálfum tíma í kassanum, en sú stund hafi reyndar liðið á við eitt og hálft ár, að því er Ghosn segir í viðtali við BBC.
Bandarísku feðgarnir Michael og Peter Taylor aðstoðuðu Ghosn á flóttanum. Þóttust þeir vera tónlistarmenn með hljóðfæri sem þurfti að ferja í umræddum kassa. Kassinn geymdi hins vegar enginn hljóðfæri, heldur fyrrverandi stórlax úr bílaheiminum, Carlos Ghosn.

Áætlunin heppnaðist og þegar feðgarnir og kassinn sem innihélt Ghosn komust í gegnum eftirlitið á flugvellinum var förinni haldið til Beirút, í gegnum Tyrkland. Þar hefur Ghosn haldið til en enginn framsalssamningur er á milli Líbanon og Japans.
Feðgarnir tveir voru hins vegar framseldir til Japans frá Bandaríkjunum fyrir þátt sinn í flóttanum, þar sem þeir hafa játað að hafa aðstoðað Ghosn að flýja Japan.