Í gær voru miður falleg ummæli Pérez um Iker Casillas og Raúl birt í spænska miðlinum El Confidencial. Þar sagði Pérez að þessar hetjur vera mestu brandara í sögu Real Madrid.
Nú hefur El Confidencial birt fleiri ummæli Pérez. Þau eru frá 2012 en þar úthúðar hann þeim Ronaldo og Mourinho.
„Hann er brjálaður,“ sagði Pérez um Ronaldo sem er markahæsti leikmaður í sögu Real Madrid og vann Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum með liðinu.
„Þessi gaur er hálfviti, veikur maður. Þú heldur að hann sé venjulegur en hann er það ekki. Annars myndi hann ekki gera það sem hann gerir.“
Pérez fór einnig ófögrum orðum um Mourinho sem stýrði Real Madrid á árunum 2010-13.
„Þessir gaurar eru með hræðileg egó, báðir spilltir, þjálfarinn og hann. Mourinho er hálfviti. Hann er skrítinn og hefur ekki ráðið við pressuna,“ sagði Pérez.
Hann hefur ekki enn brugðist við birtingu ummælanna um Ronaldo og Mourinho. Í gær sagði hann að ummælin um Casillas og Raúl hefðu verið birt til að koma höggi á hann vegna aðkomu hans að stofnun Ofurdeildarinnar.
Pérez var forseti Real Madrid á árunum 2000-06 og tók svo aftur við þeirri stöðu 2009 og er enn við stjórnvölinn hjá félaginu.