Erlendir miðlar hafa slegið upp fréttum um styttingu vinnuvikunnar á Íslandi og hve vel það átak hafi gengið. Í kvöldfréttum rýnum við í skýrsluna og ræðum við formann Sjúkraliðafélags Íslands sem segir ýmsa hnökra á fyrirkomulaginu.
Þá verður rætt við fimm karlmenn sem voru vistaðir á vöggustofum á vegum Reykjavíkurborgar um miðbik síðustu aldar. Þeir lýsa mjög skaðlegum áhrifum á tilfinningalíf sitt vegna dvalarinnar og leita nú réttar síns.
Í fréttatímanum verður að auki rætt við fjármálaráðherra um viðsnúning á íslensku efnahagskerfi og farið á hjólaskauta á jaðarlistahátíð.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis kl. 18.30.