Myndbandið var birt af manni sem heitir Tom Henderson en hann hefur áður sagt frá lekum sem snúa að leikjaseríum eins og Battlefield og Call of Duty.
Í myndbandinu segist Henderson hafa heimildir fyrir því að leikurinn muni gerast í samtímanum og muni meðal annars gerast í borginni Vice City. Sú borg var heimsótt í leiknum GTA: Vice City, sem kom út árið 2002, og samsvarar Miami.
Hann segir einnig að kort leiksins muni breytast með tímanum og í takt við breytingar í fjölspilunarhluta leiksins, eins og tölvuleikjaspilarar kannast ef til vill við úr leikjum eins og Fortnite og jafnvel Call of Duty: Warzone.
Henderson heldur því einnig fram að Rockstar Games muni halda sig við fleiri en eina aðalpersónu, eins og gert var í GTA V.
Stærsta mögulega uppljóstrun Henderson er þó mögulega sú að hann sagði framleiðslu leiksins ekki langt á veg komna og spáði því að hann yrði ekki gefinn út fyrr en árið 2024 eða 2025.
Myndbandið má sjá hér að neðan.
Rockstar varð fyrir mikilli gagnrýni í kjölfar útgáfu leiksins Red Dead Redemption 2 árið 2018. Í kjölfar þess skrifaði blaðamaðurinn Jason Schreier grein á vef Kotaku, þar sem fram kom að starfsmenn Rockstar hefðu verið þvingaðir til að vinna gífurlega mikla yfirvinnu í aðdraganda útgáfu leiksins.
Það er sagt vera meðal ástæða þess að framleiðsla GTA 6 gangi hægt. Það er að forsvarsmenn Rockstar hafi tekið þá ákvörðun að bæta starfsanda í fyrirtækinu á þann veg að starfsmenn vinni ekki jafn mikla yfirvinnu.
Tekið er fram í frétt PC Gamer að Schreier, sem skrifar nú fyrir Bloomberg, birti tíst í gær þar sem hann sagði spá Henderson í takt við þær upplýsingar sem hann hefði fengið.
GTA 5 kom út árið 2013 og síðan þá er hann orðinn að arðbærustu skemmtanaafurð sögunnar. Rockstar og Take Two, sem gefur út leikinn, vörðu um 265 milljónum dala í framleiðslu leiksins, sem gerir hann að dýrasta tölvuleik sögunnar, en hagnaðurinn er gífurlega mikill.
Árið 2018 höfðu fyrirtækin þénað um sex milljarða dala á leiknum.
Sjá einnig: Gefa GTA V út í nóvember, enn eina ferðina
Hann var fyrst gefinn út fyrir PlayStation 3 og Xbox 360. Hann var svo seinna uppfærður fyrir PS4 og Xbox One og svo enn seinna fyrir PC-tölvur. Nú er komið að PS5 og Xbox Series X.