Fyrsta helgi júlímánaðar er ár hvert mikil ferðahelgi. Þeir sem ætla að elta góða veðrið á ferðalagi um helgina hafa úr mörgum landshlutum að velja en hiti verður um og yfir fimmtán stig á landinu öllu.
„Það er útlit fyrir fremur hæga breytilega átt svona á öllu landinu. Jafnvel hafgolu einkum síðari hluta daganna. Það er bjartviðri á öllu landinu en þó líkur á einhverju þokulofti út með ströndinni, einkum á kvöldin og fram undir morgun. Lítil úrkoma, stöku síðdegisskúr hér og þar sem fylgir þessu góða og hýja veðri. Hitanum verður nokkuð jafn skipt um allt landið, um og yfir 15 stig í öllum landshlutum á hverjum einasta degi,“ sagði Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Hlýjast veður á Norðausturlandi þar sem hiti slær í tuttugu stig.
„Heilt yfir er enginn landshluti sem sker sig neitt rosalega úr veðurlega. Það er helst Suðausturlandið þar sem verður helst skúraloft á sunnudaginn,“ sagði Eiríkur Örn.
Staðan skárri á Norðurlandi
Miklir vatnavextir hafa verið á norðurlandi vegna hlýinda. Hættustig er í gildi á svæðinu en fólk sem býr í Fnjóskadal fyrir innan Illugastaði er innilokað eftir að vegur fór í sundur. Yfirlögregluþjónn segir að það væsi ekki um íbúa og að það hafi dregið úr vatnavöxtum.
„Staðan er bara skárri. Það hafa ekki komið upplýsingar um frekari skemmdir á vegum eða mannvirkjum. Það er heldur að sjattna í þessum ám hérna eins og t.d. Eyjafjarðará og Fnjóská,“ sagði Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra.