Liðin tvö vermdu fallsvæðið fyrir leik dagsins. Djurgården var í betri stöðu, með sex stig í ellefta sætinu, eftir sigur á Eskiltuna í síðasta leik. Växjö átti hins vegar enn eftir að vinna leik í deildinni og var með tvö stig á botninum.
Eftir það sem undan er gengið virtust bæði lið hins vegar hræddari við að tapa heldur en ákveðin í að vinna. Hvorugt þeirra náði að setja mark sitt á leikinn og markalaust jafntefli því niðurstaðan.
Guðrún Arnardóttir spilaði allan leikinn í vörn Djurgården og Andrea Mist Pálsdóttir spilaði sömuleiðis allar 90 mínúturnar fyrir Växjö, en hún fékk að líta gult spjald undir lok leiks.
Växjö er þá með þrjú stig á botninum en Djurgården fer upp í sjö stig, líkt og Piteå, lið Hlínar Eiríksdóttur, og Eskiltuna. Þau eiga þó leiki inni þar sem sá milli Växjö og Djurgården var sá fyrsti í níundu umferðinni.