Greint er frá ráðningunni á vef DV þar sem Björn segist hlakka til verkefnisins. Hann hafi alist upp sem blaðamaður á DV og hlakki til að móta stefnu og ásýnd DV til framtíðar.
„Mitt helsta markmið að freista þess að styrkja fréttahluta miðilsins enn frekar og bjóða lesendum upp á góða blöndu af fréttum og afþreyingarefni,“ segir Björn.
Björn er á meðal færustu skákmanna landsins. Hann var á meðal þeirra tíu sem kepptu á Íslandsmótinu í skák á dögunum og skrifaði samhliða því pistla á fróðlegum en skemmtilegum nótum á Vísi.
Björn hætti sem blaðamaður á Fréttablaðinu í upphafi árs en snýr nú aftur undir hatt Torgs sem gefur út Fréttablaðið, DV og Hringbraut.