Khan var fyrsti músliminn til að verða borgarstjóri stórrar vestrænnar borgar þegar hann náði fyrst kjöri árið 2016. Hann hlaut 55,2% atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í gær gegn 44,8% Shauns Baily, frambjóðanda Íhaldsflokksins. Sigur Khan var naumari nú en fyrir fimm árum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Verkamannaflokkurinn reið þó ekki feitum hesti frá sveitarstjórnarkosningunum almennt. Hann tapaði í bæjum og sveitum í sögulega sterkum vígum sínum á Mið- og Norður-Englandi þar sem hann hlaut slæma útreið sömuleiðis í þingkosningum fyrir tveimur árum.
The Guardian segir að Keir Starmer, leiðtogi flokksins, ætli sér að gera breytingar í framvarðarsveit hans til að bregðast við úrslitunum. Ætlun hans sé að fleiri þungavigtarmenn sem geta vafið fjölmiðlum um fingur sér í leiðtogastöður.
Á meðal þeirra sem eru nefndir til sögunnar eru Yvette Cooper, fyrrverandi vinnumála- og eftirlaunaráðherra, og Hilary Benn, fyrrverandi þróunarmálaráðherra, sem gætu fengið aukið vægi innan Verkamannaflokksins á næstunni.