Heilbrigðisráðuneyti landsins tók ákvörðun um þetta og byggði hana á gögnum úr þriðja fasa rannsókn á efninu þar sem börn á þessum aldri höfðu verið bólusett gegn veirunni.
Þegar var heimild til að bólusetja sextán ára og eldri með bóluefninu. Meira en 1,2 milljónir hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni í Kanada og um 20 prósent þeirra hafa verið undir nítján ára aldri.
Líkurnar á því að börn verði fárveik eða deyi af völdum veirunnar eru töluvert minni en hjá fullorðnum og frá því að faraldurinn hófst hafa aðeins örfá börn þurft að leggjast inn á sjúkrahús í landinu.
Í mars greindi Pfizer frá bráðabirgðaniðurstöðum þriðju fasa rannsóknar um áhrif bóluefnisins á börn á aldrinum tólf til fimmtán ára. Samkvæmt þeim niðurstöðum virkar bóluefnið í 100 prósent tilvika og ónæmiskerfi barnanna brást hratt við bóluefninu.
Lyfjastofnun Bandaríkjanna og Lyfjastofnun Evrópu eru nú með það til skoðunar hvort heimila eigi bólusetningu á svo ungum börnum og er búist við niðurstöðum stofnananna á næstunni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti greindi frá því í vikunni að hann væri þegar farinn að undirbúa bólusetningaráætlun fyrir þennan aldurshóp og hyggist ráðast í bólusetningar eins fljótt og auðið er.