Þetta kemur fram í tilkynningu um framboð Diljár. Hún er fædd í Reykjavík árið 1987 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti í desember 2016, yngst kvenna á Íslandi. Diljá er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og LL:M. gráðu í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti frá sama skóla. Diljá hefur verið aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra frá 2018 en áður starfaði hún sem fulltrúi á lögmannsstofunni Lögmáli.
„Ég tel mikilvægast að við horfum á stóru myndina – forræðishyggja og vaxandi afskipti ríkisins af venjulegu fólki er mikið áhyggjuefni. Í frjálsu samfélagi er hagsmunum okkar best borgið, þar nýtur hvert og eitt okkar sín best – fjölbreytileiki mannlífsins er okkar helsti styrkleiki. Við höfum staðið okkur best þegar við treystum á okkur sjálf. Nú eigum við að horfa óhrædd og björtum og augum til framtíðar,” er haft eftir Diljá Mist í tilkynningunni.
Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, meðal annars sem varaborgarfulltrúi og varaformaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Diljá Mist er gift Róberti Benedikt Róbertssyni fjármálastjóra og eiga þau tvö börn.
Á fjórða hundrað manns hafa lýst yfir stuðningi við framboð Diljár Mistar að því er fram kemur í tilkynningunni.