Í tilkynningu á vef Blaðamannafélagsins segir að Sigríður Dögg hafi fengið 171 atkvæði eða 54,6 prósent atkvæða. Hún tekur við formannsstöðunni af Hjálmari Jónssyni.
Heimir Már Pétursson, fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, fékk 130 atkvæði eða 41,5 prósent atkvæða.
Auðir seðlar voru tólf eða 3,8 prósent atkvæða.
Alls voru 553 á kjörskrá og atkvæði greiddu 313 þannig að kjörsókn var 56,6 prósent.
Fráfarandi formaður hefur gegnt stöðunni frá 2010 og var þar áður framkvæmdastjóri félagsins. Undanfarinn áratug hefur formaðurinn jafnframt gegnt starfi framkvæmdastjóra.