Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það snúist í suðvestan tíu til átján metra um og eftir hádegi með skúrum eða slydduéljum um landið sunnan- og vestanvert og kólnandi veðri. Dregur úr vindi í kvöld.
„Sunnan gola eða kaldi og áfram skúrir eða slydduél í fyrramálið, en léttskýjað um landið norðaustanvert. Síðdegis á morgun og annað kvöld lægir og fer að rigna allvíða. Hiti 3 til 10 stig.ׅ“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Suðlæg átt 8-13 m/s og skúrir eða slydduél, en bjartviðri á NA- og A-landi. Lægir síðdegis og fer að rigna á SA- og A-verðu landinu. Hiti 3 til 10 stig.
Á sunnudag: Suðvestan 8-15 og slydduél eða él, en léttir til á NA- og A-landi. Hiti 0 til 7 stig.
Á mánudag: Suðvestan og vestan 5-10 og él, en lengst af bjartviðri um landið A-vert. Hiti um eða yfir frostmarki.
Á þriðjudag: Vestan 5-13 og bjart með köflum, en stöku skúrir eða él við N- og V-ströndina. Heldur hlýnandi.
Á miðvikudag: Suðaustanátt og þurrt að kalla, en bjartviðri um landið N-vert. Hiti 0 til 6 stig.
Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti): Útlit fyrir suðlæga átt með dálítilli vætu V-til, en björtu veðri eystra. Hiti 5 til 11 stig.