Fótbolti

Glódís ánægð með hina sítalandi Cecilíu: „Stendur og fellur með sínum ákvörðunum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir í leiknum gegn Ítalíu á laugardaginn.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir í leiknum gegn Ítalíu á laugardaginn. getty/Gabriele Maltinti

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði fyrir framan hina sautján ára gömlu Cecilíu Rán Rúnarsdóttur í vináttulandsleik Íslands og Ítalíu á laugardaginn.

Þetta var annar landsleikur hinnar bráðefnilegu Cecilíu sem var valin besti ungi leikmaður Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili.

Cecilía átti fínan leik í marki Íslands á laugardaginn þrátt fyrir 1-0 tap.

„Það er mjög gott að spila með Cecilíu. Hún talar mikið og er örugg í því sem hún gerir,“ sagði Glódís á blaðamannafundi í gær.

„Hún stendur og fellur með sínum ákvörðunum sem er mjög mikilvægt. Það er gaman að sjá hvernig hún kemur inn í þetta.“

Enska úrvalsdeidarliðið Everton keypti Cecilíu frá Fylki í vor. Hún mun hins vegar leika á láni hjá Örebro í sænsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Glódís leikur með Rosengård og hefur spilað í sænsku úrvalsdeildinni síðan 2015.

Leikur Íslands og Ítalíu hefst klukkan 14:00 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 13:40.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×