Ítalir unnu fyrri leikinn gegn Íslandi á laugardaginn með einu marki gegn engu. Að sögn Þorsteins komust allir leikmenn íslenska liðsins ómeiddir frá leiknum í fyrradag. Hann á von á því að breyta byrjunarliðinu talsvert fyrir leikinn á morgun.
„Það eru allar heilar og það verða þónokkrar breytingar. Við verðum með fjórar til fimm breytingar sýnist mér,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag.
Hann kveðst ánægður með að fá leikina tvo gegn sterku ítölsku liði áður en alvaran í undankeppni HM tekur við í haust.
„Það skiptir öllu máli að slípa liðið til og fá verkefni sem hjálpa til að undirbúa þig undir leikina sem skipta máli og telja,“ sagði Þorsteinn.
„Við sáum það bara í síðasta landsleikjaglugga hjá karlalandsliðinu að það er ekkert auðvelt að fá þrjá daga til að undirbúa sig fyrir verkefni í riðlakeppni. Þessir leikir hjálpa okkur mikið og gerir okkur vonandi betri í haust.“
Undankeppni HM 2023 hefst í september en dregið verður í riðla 30. apríl.
Leikur Íslands og Ítalíu hefst klukkan 14:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 13:40.