Réttarhöld yfir Chauvin, lögreglumanninum fyrrverandi sem sakaður er um að hafa orðið Floyd að bana, setanda nú yfir. Chauvin er sagður hafa valdið dauða Floyd þegar hann kraup á hálsi hans í meira en níu mínútur við handtöku í maí í fyrra.
Seth Bravinder, bráðaliði, sagði að hann hafi beðið Chauvin að hætta að krjúpa á hálsi Floyd svo að hann gæti veitt honum skyndihjálp. Hann sagði að í fyrstu hafi útkallið sem barst ekki verið flokkað þannig að líf væri í hættu en það breyttist fljótt.
Hann sagði að í fyrstu hafi hann haldið að lögreglumenn á vettvangi og Floyd tækjust á en þegar þeir hafi mætt á vettvang hafi fljótt komið í ljós að Floyd væri ekki með lífsmarki.
„Ég reyndi að gefa honum annað tækifæri til að lifa lífinu“
Í myndbandsupptökum sem teknar voru á vettvangi sést Bravinder benda á Chauvin og sagði Bravinder að hann hafi þá verið að biðja Chauvin um að færa sig svo að hann „kæmist að sjúklingnum.“
Derek Smith, félagi Bravinders, staðfesti þetta og sagðist hafa athugað hvort hann gæti fundið púls hjá Floyd.
„Til þess að vera alveg skýr þá hélt ég að hann væri dáinn,“ sagði Smith í dag.
„Þegar ég mætti á vettvang var enginn að veita sjúklingnum læknisaðstoð,“ sagði Smith.
Bráðaliðarnir lýstu því hvernig þeir færðu Floyd yfir á sjúkrabörur og inn í sjúkrabíl til þess að hefja fyrstu hjálp. Smith sagði að á einum tímapunkti hafi hann haldið að hann gæti séð rafvirkni frá hjarta Floyds og hann hafi í kjölfarið gefið honum raflost í von um að koma hjartanu aftur af stað.
„Hann var manneskja og ég var að reyna að gefa honum annað tækifæri til að lifa lífinu,“ sagði Smith.
Þá lýsti Bravinder því að á leiðinni á sjúkrahúsið hafi hann stöðvað sjúkrabílinn til að hjálpa Smith eftir að hjartalínurit sýndi að engin virkni væri í hjarta Floyds. Allar frekari tilraunir til endurlífgunar mistókust.