Gríðarleg ásókn var á gosstöðvarnar í gær og á endanum var gripið til þess ráðs að loka svæðinu fyrir bílaumferð þar sem allt var orðið fullt á stæðunum sem útbúin hafa verið.
Nokkuð var þó um að fólk léti það ekki stoppa sig og gengu menn þess í stað frá Grindavík eftir Suðurstrandavegi.
Lögreglan segir í samtali við fréttastofu að ætli menn sér að gera slíkt verði fólk að átta sig á því að þá er verið að bæta 16 kílómetrum við gönguna, en um átta kílómetrar eru frá Grindavík og að uppgönguleiðinni að gosinu.
Nokkuð hafi verið um illa búið fólk og áréttar lögregla mikilvægi þess að vera með endurskinsmerki ætli það sér að ganga frá Grindavík, því mikið hafi verið um dökkklætt fólk í vegarkantinum á Suðurstrandarvegi í gærkvöldi og í nótt.
Allt hafi þó gengið stórslysalaust fyrir sig og stendur til að funda um framhaldið með morgninum. Því er enn óljóst hvenær gönguleiðin verður opnuð í dag.
Lítið er svo að frétta af gosinu sjálfu annað en að það staðan er svipuð. Hraunrennsli virðist svipað og verið hefur og skjálftavirkni er ekki mikil á svæðinu samkvæmt náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt gasmengunarspá sem birt er á vef Veðurstofunnar er spáð vestlægri og suðvestlægri átt nú fyrir hádegi. Mengunina mun því leggja yfir byggð bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og á Suðurlandi.
Undir kvöld er svo spáð vestanátt og verður þá mun minni mengun á höfuðborgarsvæðinu en áfram er líklegt að brennisteinslyktar verði vart á Suðurlandi, það er í Þorlákshöfn, Hveragerði, á Selfossi og í uppsveitum þar norðan af.