Hinn 66 ára Salmond, fyrrum leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, sagði í dag að flokkurinn myndi vinna að félagslega réttlátu og umhverfislega ábyrgu sjálfstæðu ríki. Sagði hann markmiðið að ná „ofur-meirihluta“ fyrir sjálfstæði á skoska þinginu.
Salmond sagðist stefna á að bjóða fram að minnsta kosti fjóra einstaklinga í hverju kjördæmi og að vonir stæðu að ná inn þingmanni frá öllum landshlutum Skotlands.
Þess ber að geta að þingmenn eru kjörnir með tvennum hætti.
Landinu er annars vegar skipt í 73 einstaklingskjördæmi þar sem valið er á milli einstaklinga og hins vegar í átta kjördæmi þar sem 56 einstaklingar eru kjörnir til viðbótar en þar er valið á milli framboðslista.
Alba-flokkurinn mun eingöngu bjóða fram í listakosningunum.
Salmond segir kosningabaráttuna háða á jákvæðum forsendum og hefur hvatt kjósendur til að styðja Skoska þjóðarflokkinn eða aðra flokka sem styðja sjálfstæði í einstaklingskosningunum.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, hefur sagt að ef hún nær meirihluta í þingkosningunum muni hún efna til annarar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað.
Sjálfstæði er meðal fárra hluta sem Salmond og Sturgeon eru sammála um þessi misserin en Sturgeon hefur verið ásökuð um embættisbrot eftir að nokkrar konur stigu fram og sökuðu Salmond um kynferðisbrot.
Salmond segir Sturgeon hafa lagt á ráðin gegn sér en Sturgeon ásakar Salmond um að skálda samsæriskenningar gegn sér.