Háttsettur læknir ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisstarfsmenn voru sendir heim til ættingja Cuomo og vildarvina, að sögn heimildarmanna Washington Post. Rannsóknastofa ríkisins greindi sýnin svo samstundis. Á þeim tíma annaði rannsóknastofan aðeins nokkur hundruð sýnum á dag. Nítján milljónir manna búa í New York.
Á meðal þeirra sem eru sagðir hafa fengið slíkan forgang í skimun er Chris Cuomo, þáttastjórnandi á sjónvarpsstöðinni CNN, og bróðir ríkisstjórans. Læknir var sendur heim til hans á Hamptons-svæðinu skammt frá New York-borg og tók sýni úr honum og fjölskyldu hans. Þáttastjórnandinn greindist með Covid-19 í mars í fyrra.
Lög í New York banna embættismönnum að nýta sér stöðu sína til að veita sjálfum sér eða öðrum forgang. Sumir embættismenn eru sagðir hafa verið uggandi yfir því að heilbrigðisstarfsmönnum væri sagt að veita ættingjum Cuomo forgang í skimun fram yfir almenna borgara.
Talsmaður Cuomo ber því við að á upphafsdögum faraldursins hafi mikil áhersla verið lögð á smitrakningu og heilbrigðisstarfsmenn hafi stundum verið sendir heim til fólks sem var talið smitað af Covid-19 til að taka sýni. Á meðal þeirra sem hafi fengið slíkar heimsóknir hafi verið almennir borgarar, ríkisþingmenn, fréttamenn, starfsmenn ríkisins og fjölskyldur þeirra.
Cuomo ríkisstjóri á fyrir í vök að verjast vegna ásakana fjölda kvenna um að hann hafi áreitt þær kynferðislega. Leiðtogar Demókrataflokksins, sem Cuomo tilheyrir, á ríkisþingi New York og á Bandaríkjaþingi hafa hvatt Cuomo til að segja af sér vegna þeirra. Einnig sætir stjórn hans gagnrýni fyrir að hafa reynt að hylma yfir raunverulegan fjölda látinna á hjúkrunarheimilum í faraldrinum.