Útförinni var sjónvarpað en vegna kórónuveirufaraldursins gátu aðeins átta nánir fjölskyldumeðlimir verið viðstaddir útförinni. Sex hermenn úr hersveit Jórvíkurskíris, sem Moore var hluti af í síðari heimstyrjöldinni, báru kistu hans til grafar. Þá stóðu fjórtán hermenn heiðursvörð og skutu úr byssum upp í loft honum til heiðurs. Herflugvélinni Douglas C-47, sem var notuð af Bretum í síðari heimstyrjöld, var flogið yfir útfararstaðinn.

Um leið og sóttvarnareglur leyfa ætlar fjölskylda Moors að jarðsetja ösku hans í Jórvíkurskíri þar sem hann mun hvíla ásamt foreldrum sínum, öfum og ömmum.
Moore dó 2. febrúar síðastliðinn eftir að hafa smitast af kórónuveirunni, hundrað ára gamall.
Moore öðlaðist heimsfrægð síðasta sumar þegar hann safnaði 32 milljónum punda, eða um 6 milljörðum íslenskra króna, til styrktar breska heilbrigðiskerfinu í ljósi kórónuveirufaraldursins. Upphaflega stefndi hann á að ganga hundrað hringi í garðinum sínum og safna þúsund pundum.

Moore var sleginn til riddara af Elísabetu Bretlandsdrottningu vegna framlags hans til bresks samfélags. Hann hafði verið útnefndur til riddaratignar af Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í maí í fyrra.