Sendiherrann, Isabel Brilhante Pedrosa, hefur þrjá sólarhringa til að yfirgefa Venesúela.
Þjóðþing Venesúela, sem er undir stjórn flokks Nicolas Madúró, forseta, samþykkti í gær þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin vísaði Pedrosa úr landi og að viðvera ESB í Venesúela yfir höfuð verði endurskoðuð.
Utanríkisráðherrar ESB sökuðu í gær embættismennina nítján um mannréttindabrot í Venesúela og um að grafa undan lýðræðinu þar. Í heildina hafa 55 embættismenn í Venesúela verið beittir viðskiptaþvingunum af ESB.
Það felur í sér að eigur þeirra innan landamæra sambandsins eru frystar og þeim er meinað að ferðast þangað.
Aðgerðirnar snúa að kosningum til þjóðþingsins sem haldnar voru í Venesúela í desember. Þær hafa verið harðlega gagnrýndar og neitaði stjórnarandstaða landsins að taka þátt í þeim. Utanríkisráðherrar ESB hafa sagt þær ómarkverðar, samkvæmt frétt Politico.
Ein af ástæðum þess að stjórnarandstaðan ákvað að sniðganga kosningarnar var að Hæstiréttur landsins hafi látið fjarlægja leiðtoga þriggja stjórnarandstöðuflokka og þess í stað skipað þrjá aðra sem stjórnarandstaðan sakar um að vinna með Maduro forseta.
Sjá einnig: Fengu 91 prósent atkvæða í umdeildum kosningum
Nýju þvinganirnar eru til viðbótar við þær sem beitt var gegn Venesúela árið 2017. Þá bannaði ESB meðal annars sölu vopna til Venesúela.
Í kjölfar þess lýsti Madúró því yfir að Pedrosa ætti að yfirgefa landið innan þriggja sólarhringa. Það gerði hún ekki og þrátt fyrir það greip ríkisstjórn Madúrós ekki til frekari aðgerða.
Sakaðir um glæpi gegn mannkyninu
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna sakaði ríkisstjórn Madúrós um glæpi gegn mannkyninu í fyrra. Voru öryggissveitir landsins sagðar hafa beitt stjórnarandstæðinga og almenna borgara kerfisbundnu ofbeldi um áraraðir.
Venesúela var áður meðal auðugustu ríkja Suður-Ameríku en hefur á undanförnum árum átt í gífurlegum efnahagserfiðleikum. Viðskiptaþvinganir, lækkandi olíuverð og spilling hafa valdið himinhárri verðbólgu og á meirihluti landsmanna jafnan í vandræðum með að hafa í sig og á.
Milljónir hafa flúið frá Venesúela á undanförnum árum.