Innlent

Svefnlausir starfsmenn dýrir vinnuveitendum sínum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Erla Björnsdóttir, svefnráðgjafi, sem er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns.
Erla Björnsdóttir, svefnráðgjafi, sem er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns. Aðsend

Það er allt of algengt að fólk komi þreytt og illa sofið í vinnuna, sem er dýrt fyrir atvinnurekendur því þá er meiri hætta á mistökum hjá starfsfólki og að það lendi í slysum. Þá taki svefnlausir starfsmenn 100% fleiri veikindadaga heldur en þeir sem sofa vel. Þetta segir svefnráðgjafi, sem segir ekkert jafnast á við góðan svefn.

Það er æði misjafn hvað við sofum mikið, sumir þurfa að sofa lítið en aðrir þurfamikinn svefn. Rannsóknir segja þó að þriðjungur íslensku þjóðarinnar sofi allt of lítið, eða sex tíma á nóttu en við eigum að sofa allavega sjö tíma á nóttu og helst átta til níu tíma. Erla Björnsdóttir, sem er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns og svefnráðgjafi segir atvinnulífið tapa á illa sofandi starfsfólki.

„Já, og það er mjög dýrt fyrir vinnuveitendur því ef við erum illa sofin þá erum við bæði margfalt líklegri til að gera mistök og lenda í slysum og svefnlausir starfsmenn taka líka 100 prósent fleiri veikindadaga heldur en þeir sem sofa vel, þannig að það er til mikils að vinna að bæta svefn hjá starfsfólki,“ segir Erla.

Hvernig ættu vinnuveitendur að beita sér í því?

„Bæði að vera með fræðslu um mikilvægi svefns inn á vinnustöðunum og svo við hjá eins og Betri Svefn erum að skima fyrir svefnvandamálum innan fyrirtækja og veita þreyttu starfsfólki meðferðir við svefnvanda, þannig að það er ein leið sem hægt er að fara. Svo auðvitað líka að vera sveigjanlegur, bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma þar sem það er hægt.“

Erla segir að þeir sem lifi vel og lengi sofi samtals í 30 ár af ævi sinni, sem er mikill tími og því skipti gæði svefnsins öllu máli. En hvenær sofum við best á nóttunni?

„Fyrri part nætur, þá erum við í þessum djúpa svefni, sem er mikilvægast svefninn og skilar okkur hvíldinni og endurnæringunni, sem við viljum auðvitað öll fá út úr svefninum,“ segir Erla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×