Erlent

Trump mun veikari vegna Covid-19 en gefið var upp

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Trump sést hér koma fram á svalir Hvíta hússins eftir að hann útskrifaðist af spítala og taka af sér andlitsgrímu.
Trump sést hér koma fram á svalir Hvíta hússins eftir að hann útskrifaðist af spítala og taka af sér andlitsgrímu. Getty/Win McNamee

Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, var mun veikari vegna Covid-19 í október síðastliðnum en gefið var upp opinberlega. Hann var með mjög lág súrefnisgildi í blóði á einum tímapunkti og lungnavandamál sem talið var tengjast lungnabólgu vegna kórónuveirunnar.

Frá þessu er greint í ítarlegri umfjöllun The New York Times og vísað í fjóra heimildarmenn sem sagðir eru þekkja til ástands forsetans fyrrverandi þegar hann var veikur.

Svo miklar áhyggjur voru af batahorfum Trumps áður en hann var fluttur á Walter Reed-herspítalann að embættismenn töldu að hann þyrfti á öndunarvél að halda.

Trump var kominn með íferð í lungun sem er eitt af alvarlegri einkennum Covid-19. Þá voru lág súrefnisgildi í blóði mikið áhyggjuefni.

Gildin fóru niður fyrir 90 en fólk er talið alvarlega veikt af Covid-19 ef súrefnisgildin mælast aðeins fyrir ofan 90 að því er segir í frétt The New York Times.

Áður hafði verið greint frá því að Trump átti erfitt með að anda og var með hita daginn sem hann var fluttur á spítalann, þann 2. október.

Ástand hans virtist alvarlegt en í frétt The New York Times segir að það hafi verið alvarlegra en látið var með. Þannig hafi læknateymi hans reynt að fegra ástandið og sagt forsetann á batavegi þegar hann var mikið veikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×