Jökull, sem er 19 ára Mosfellingur, ver þessa dagana mark Execter City í ensku D-deildinni sem lánsmaður frá Reading.
Jökull tók þátt í „Tími til að tala“-deginum í Bretlandi í gær, þar sem fólk var hvatt til að taka sér tíma og ræða um andlega heilsu. Hann sagðist sjálfur hafa glímt við kvíða alla sína ævi. Nauðsynlegt væri að reyna að tala um sín vandamál og að ef einhver þyrfti á spjalli að halda væri viðkomandi velkomið að hafa samband.
This is something that I take very seriously, there is too many people out there that think talking about there problems is something bad, it can help you out so massively and I recommend to anyone to give it a go.. If anyone ever needs a chat, u can always contact me https://t.co/kDPtz4HGh5
— Jökull Andrésson (@JokullAndresson) February 4, 2021
„Ég hef þurft að takast á við kvíða frá því að ég var mjög ungur. Besta leiðin mín til að takast á við kvíðann hefur alltaf verið að tala um hann. Að taka á þessu með opnum huga,“ segir Jökull í myndbandi sem birt er á samfélagsmiðlum Exeter.
Tali við mömmu, pabba eða jafnvel hundinn sinn
„Ég hef þurft að fara í gegnum alls konar meðferðir og hef talað við fjölda fólks, til að hjálpa mér, en það hjálpaði mér svo rosalega að tala um mín vandamál og hvernig mér liði. Þegar maður byrjar að tala um hlutina þá sér maður kannski að vandamálið er ekki eins stórt og maður hélt. Þegar maður glímir við kvíða og álag þá virðist allt miklu verra en það er,“ segir Jökull.
„Það hafa allir sínar aðferðir til að takast á við hlutina. Mér finnst gott að tala um þá. Ég mæli með því við fólk sem glímir við kvíða eða þunglyndi, að reyna eins og það getur að tala um hlutina. Það má tala við hvern sem er. Það gæti verið mamma þín eða pabbi eða hundurinn þinn. Það skiptir ekki máli. Þegar þér tekst að tala um hlutina og hleypa tilfinningunum út, þá hjálpar það þér rosalega. Þetta tekur tíma en þetta snýst um að taka lítil skref,“ segir Jökull.
Þeim sem telja að þeir þjáist af þunglyndi eða kvíða er bent á að tala við heimilislækni sinn eða panta tíma hjá sálfræðingi. Á vef Áttavitans má finna fleiri hagnýtar upplýsingar.