Bæði Southampton og Arsenal áfrýjuðu rauðu spjöldunum sem þeir Bednarek og Luiz fengu á þriðjudaginn. Áfrýjun Southampton bar árangur en ekki áfrýjun Arsenal.
Bednarek getur því leikið með Southampton þegar liðið sækir Newcastle United heim í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Luiz þarf hins vegar að fylgjast með leik Arsenal og Aston Villa í hádeginu á laugardaginn úr stúkunni.
Auk Luiz fékk Bernd Leno, markvörður Arsenal, að líta rauða spjaldið gegn Wolves. Rúnar Alex Rúnarsson kom inn á í kjölfarið og gæti fengið tækifæri milli stanganna hjá Arsenal gegn Villa.
Luiz hefur fengið þrjú rauð spjöld síðan hann gekk í raðir Arsenal fyrir síðasta tímabil og fengið á sig sex vítaspyrnur.
Arsenal er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Southampton í því tólfta. Tveimur stigum munar á liðunum.