Frá árinu 2011 hafa fjórar skriður fallið hér á landi sem rekja má til þiðnunar í jarðvegi sem hingað til hefur verið frosinn allan ársins hring. Um er að ræða skriður í Torfufellsdal árið 2011, Mofellshyrnu árið 2012, Árnesfjalli árið 2014 og í Hleiðargarðsfjalli í innanverðum Eyjafirði síðastliðið haust.
„Þetta eru kannski hlíðar sem við höfum ekki verið að búast við skriðum úr. Hlíðar sem við höfum talið öruggar, gætu orðið óöruggar út af þessu,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur hjá Háskóla Íslands.
Vísindamenn horfðu fyrst til hlíða sem snúa á móti norðri og norðvestri þar sem sólarljóss gætir minnst. Hlíðin í Hleiðargarðsfjalli sneri hins vegar á móti suðaustri. Þá hafa vísindamenn verið að horfa til um 800 metra hæðar við mat á sífrerum. Sú viðmiðum átti hins vegar ekki við þegar skriða féll úr Árnesfjalli úr 350 metra hæð. Ekki sé vitað hvort þiðnun sífrera ógni byggðum.
Hvað einkennir hlíð þar sem sífreri er?
„Það er erfitt að segja. Við erum að sjá að það er að falla úr frosnum lausum setlögum.“
Er eitthvað sem fólk gæti séð í sínu umhverfi og látið vita?
„Ef fólk verið vart við aukið grjóthrun eða aurskriðuvirkni þá er um að gera að láta Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands vita.“
Hægt sé að vakta breytingar á hlíðum með mælingum og gervitunglamyndum.
„En það þarf að gera átak og kortleggja þessi fyrirbæri og fylgjast með þeim betur.“
Í nýjasta þætti Kompás er fjallað um ofanflóð og varnir gegn þeim. Þáttinn má sjá hér fyrir neðan: