Handbolti

Elvar verður lærisveinn Guðmundar í Þýskalandi

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Örn Jónsson er á leið í bestu deild í heimi.
Elvar Örn Jónsson er á leið í bestu deild í heimi. vísir/hulda margrét

Landsliðsmaðurinn Elvar Örn Jónsson heldur til Þýskalands eftir yfirstandandi keppnistímabil en hann hefur samið við Melsungen.

Elvar, sem er 23 ára, verður því enn frekar lærisveinn landsliðsþjálfarans Guðmundar Guðmundssonar sem þjálfar Melsungen. Fyrir hjá félaginu er einnig Arnar Freyr Arnarsson, liðsfélagi Elvars í landsliðinu sem mætir Sviss á HM í dag kl. 14.30.

Samkvæmt heimildum Vísis verður formlega tilkynnt um félagaskipti Elvars að heimsmeistaramótinu loknu. 

Elvar Örn Jónsson í leiknum gegn Marokkó á mánudaginn.EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Elvar bætist þar með í stóran hóp Íslendinga í bestu félagsliðadeild í heimi en í landsliðshópi Íslands í Egyptalandi eru fyrir ellefu leikmenn sem spila í efstu deild Þýskalands.

Elvar er í dag leikmaður Skjern í Danmörku þar sem hann hefur leikið við góðan orðstír eftir komuna frá Selfossi 2019. Elvar var valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar hér á landi tvö ár í röð áður en hann hélt í atvinnumennsku.

Kórónuveirufaraldurinn hefur truflað tímabilið hjá Melsungen sem hefur aðeins leikið 10 leiki í þýsku deildinni í vetur á meðan að flest lið hafa leikið 14-16 leiki. Melsungen er þó í 13. sæti með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×