Ferðaklúbburinn 4x4 hefur tilkynnt stjórn Landverndar ákvörðunina að því er fram kemur á heimasíðu klúbbsins.
„Ástæða uppsagnarinnar er stefna Landverndar sem hefur gengið of langt í öllum sínum gjörðum og gengið þvert gegn hagsmunum Ferðaklúbbsins 4×4.
Í þessu sambandi er einnig bent á yfirlýsingu Landverndar vegna Vonarskarðsins en þar er stefna Landverndar sú að loka skuli ökuleið um örfoka sanda fyrir umferð og á sú stefna Landverndar ekkert skylt með náttúruvernd,“ segir í tilkynningunni.
Ferðaklúbburinn 4×4 hafi því ákveðið að segja sig úr og hætta öllum stuðningi við Landvernd. Þá segi allir fulltrúar Ferðaklúbbsins 4×4 sig úr öllum nefndum Landverndar og hefur verið óskað þeir eftir að nafn klúbbsins verði fjarlægt sem félagsaðila innan samtakanna.
Innan Landverndar eru fjörutíu aðildarfélög, en auk þess eru um sex þúsund félagar, að því er fram kemur á heimasíðu samtakanna.