Körfubolti

Pálína: Púlsinn verður örugglega hár hjá stelpunum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir vann marga titla með Haukum, Keflavík og Snæfelli á sínum ferli.
Pálína Gunnlaugsdóttir vann marga titla með Haukum, Keflavík og Snæfelli á sínum ferli. vísir/ernir

Pálína María Gunnlaugsdóttir segir að liðin þurfi tíma til að spila sig í gang þegar Domino´s deild kvenna í körfubolta hefst á ný. Í kvöld verða fyrstu leikirnir í kvennakörfunni í meira en hundraða daga hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Domino´s deild kvenna verður fyrsta efsta deildin í stóru boltagreinunum til að hefja leik eftir að létt var á sóttvarnarreglunum í dag. Heil umferð fer fram í deildinni í kvöld og verða tveir leikir meðal annars sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Vísir fékk Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur til segja frá því hvernig hún sér deildina fara aftur af stað eftir svona langt hlé.

„Það eru kannski ekki miklar breytingar að fara að eiga sér stað en við munum sjá haustbrag á öllum liðum eitthvað inn í þetta nýja ár. Leikmennirnir eru ekki í neinu spilaformi. Þú getur æft endalaust en það er svolítið öðruvísi að koma inn í hörkuleiki. Gæðin verða því ekki eins og þau væru vanalega í janúar,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir sérfræðingur í Domino´s Körufboltakvöldi.

„Núna skiptir máli að þetta verði í gangi í einhvern tíma, að við sjáum ekki bara tvær vikur og svo yrði þessu aftur slaufað. Þetta er allt svo óráðið og ef þetta gerist og ef þetta gerist. Það er samt mjög jákvætt að þetta sé allt að fara af stað,“ sagði Pálína. Valsliðið er að endurheimta þrjá sterka leikmenn og ein af þeim er Helena Sverrisdóttir sem hefur verið besta körfuboltakona landsins í langan tíma.

„Það er mjög jákvætt fyrir lið eins og Val að fá Helenu til baka. Hún er búin að njóta góðs af því að þetta sé búið að vera stopp og besti leikmaður allra tíma er því ekki búin að missa af neinu,“ sagði Pálína. Helena var að eignast sitt annað barn en er byrjuð að æfa með Valsliðinu.

„Helena er samt að koma til baka eftir barnsburð og það getur verið erfitt nú þegar hún er með tvö lítil börn. Hún er svo ógeðslega góð að þó svo að hún sé að koma til baka eftir barnsburð þá á hún alltaf eftir að vera yfirburðarleikmaður. Hildur Björg á eftir að njóta þvílíkt góðs af því að fá allar þessar góðu sendingar frá henni. Það verður mjög spennandi að sjá þær spila saman,“ sagði Pálína.

Valsliðið er bara búið að vinna leik á kæru en ekki inn á vellinum sjálfum. Liðið tapaði meðal annars fyrir nýliðum Fjölnis í haust.

„Ástæðan fyrir því að Valur byrjaði ekki eins og allir bjuggust við er líka andlegt. Þegar þú veist að besti leikmaðurinn þinn (Helena) er ekki með og svo vantar þig erlendan leikmann eins og Kiönu. Þá getur þetta verið erfitt. Þær voru að mínu mati að spila langt undir getu í byrjun móts og eiga helling inni,“ sagði Pálína.

Fjölnir er nýliði í deildinni en komu flestum á óvart með því að vinna þrjá fyrstu leiki sína í haust. Það bíða margir spenntir eftir því að sjá hvernig þetta langa hlé fari í Grafavogsliðið.

„Ég held að þetta sé bara gott fyrir þær. Þetta bara eflir sjálfstraustið og ég held að þær komi bara ennþá sterkari til baka. Núna vita þær að þær eiga möguleika í þessi stóru lið. Þær unnu Val þó að Valsliðið hafi vantað sína bestu leikmenn. Ég væri skíthrædd að fara að mæta þessu Fjölnisliði og það verður ekkert auðvelt að fara upp í Dalhús og spila við þær. Ég held að þær eigi eftir að halda áfram að koma okkur á óvart út árið. Þessi pása var bara góð fyrir þær að ná betur saman og auka sjálfstraustið,“ sagði Pálína. En aftur af leikjum kvöldsins.

„Ég held að spennustigið verði alveg gríðarlega hátt,“ sagði Pálína en hvernig myndi henni líða ef að hún væri í kvöld að byrja að spila eftir meira en hundrað daga hlé inn á miðju tímabili.

„Ég mætti sjálf í ræktina í morgun í fyrsta sinn síðan að þetta lokaði. Mér leið eins og ég væri að fara í próf, stressuð en samt svo rosalega spennt,“ sagði Pálína og bætti við: „Ég held að spennustigið verði hátt og púlsinn verður hár í byrjun en þær reynslumeiri eiga eftir að átta sig á því að þetta eru bara fyrstu tvær til þrjár mínúturnar. Svo jafnar líkaminn sig og þetta verður allt eðlilegt á ný,“ sagði Pálína.

Liðin þurfa að spila marga leiki á stuttum tíma til að vinna upp alla mánuðina sem duttu út í þessu hléi.

„Nú erum við að fara að spila þétt og það er því rosalega mikilvægt að þjálfararnir nýti allan hópinn. Við munum sjá það núna hvar breiddin liggur því það er ekki auðvelt að spila svona marga leiki á svo stuttum tíma og þá sérstaklega ekki fyrir gamla skrokka. Við vitum það að þegar maður er kominn langt inn á þrítugsaldurinn þá er maður ekki eins sprækur og þegar maður var átján. Það mæðir því á þjálfurunum að nýta hópana og gefa ungu stelpunum tækifærið,“ sagði Pálína að lokum.

Útsending frá leik Fjölnis og Hauka hefst klukkan 18.05 en útsending frá leik Vals og Skallagríms hefst klukkan 20.10. Báðir leikir eru sýndir á Stöð 2 Sport. Hinir tveir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15 og eru: Breiðablik-Keflavík og Snæfell-KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×