Stærsta tæknisýning heims, þar sem helstu tæknifyrirtæki heimsins og nýgræðingar sýna vörur sínar og starfsemi, fer nú alfarið fram á netinu.
Vélmennin sem Samsung kynnti heita Bot Handy og Bot Care.
Bot Handy á að hjálpa til á heimilinu og á það til dæmis að geta tekið úr uppþvottavél, borið fram rauðvín, lagt á borð og gert ýmislegt annað. Samkvæmt Samsung mun vélmennið nota gervigreind og myndavél til að bera kennsl á muni, sjá hve þungir þeir eru, og hver hawrt má taka á þeim.
Bot Care á að vera nokkurs konar vélrænn aðstoðarmaður. Manns eigin R2-D2, bara mun verri. Vélmennið fylgist með þér og lærir á hegðun þína og bregst við henni. Það getur til að mynda nöldrað í þér þegar þú ert búinn að vera of lengi í tölvunni og minnt þig á að taka pásu. Það getur einnig tekið við símtölum.
Samkvæmt grein Engadget er alfarið óljóst hvenær þessi vélmenni verða til sölu.
Hér má sjá kynningu Samsung frá því í dag.
Samsung kynnti einnig nýtt ryksuguvélmenni sem virðist sérstaklega hannað með gæludýr í huga. Eigendur þess munu geta fylgst með dýrum sínum í gegnum vélmennið.