Bóluefni fyrir næstum 540 þúsund einstaklinga hefur verið tryggt, samkvæmt minnisblaði heilbrigðisráðherra, en með samningi Evrópusambandsins sem undirritaður var í gær er búið að tryggja skammta fyrir 660 þúsund manns.
Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér bóluefni fyrir hátt í 700 þúsund manns, samkvæmt minnisblaði heilbrigðisráðherra. Heilbrigðisráðuneytið sendi velferðarnefnd Alþingis minnisblað um bóluefni og stöðu mála á föstudag.
Þá kemur fram að búið er að tryggja bóluefni fyrir 125 þúsund manns frá Pfizer og BioNTech. Evrópusambandið gerði aukasamning fyrir helgi við fyrirtækið og fær Ísland annað eins frá fyrirtækinu eftir það. Þegar hafa 10 þúsund skammtar borist af bóluefni Pfizer til landsins og gert er ráð fyrir því að frá janúar til lok marsmánaðar muni berast hið minnsta 33 þúsund skammtar til viðbótar.
Tryggðir hafa verið skammtar fyrir 64 þúsund einstaklinga frá Moderna en von er á fyrstu skömmtunum í næstu viku. Í minnisblaðinu kemur fram að búist er við að 5000 skammtar berist fyrir lok febrúar.
Þá kemur fram að tryggðir hafa verið skammtar fyrir 235 þúsund einstaklinga frá Janssen og er búist við að markaðsleyfi verði tryggt í febrúar. Einnig hafa skammtar fyrir 114 þúsund manns verið tryggðir frá AstraZeneca.