Þetta staðfestir Þórólfur í samtali við fréttastofu nú rétt í þessu. Hann vildi ekki gefa neitt upp um það sem í minnisblaðinu felst, líkt og áður, því honum finnst rétt að ráðherrann fái svigrúm til að meta tillögur hans áður.
Yfirstandandi reglugerð um sóttvarnir fellur úr gildi 12. janúar næstkomandi og verður því að teljast afar líklegt að ríkisstjórnin hafi rætt um tillögur sóttvarnalæknis á ríkisstjórnarfundi sem enn stendur yfir.
Þórólfur hefur verið spurður út í stöðu faraldursins og hann svarað því til að staðan sé mun betri en hann hefði þorað að vona eftir hátíðarnar. Þó blasir við að landamærasmitum fjölgar og hið svokallaða breska afbrigði veirunnar sækir í sig veðrið.
Þær reglur sem nú eru í gildi voru settar fimmtudaginn 10. desember. Líkt og landsmönnum ætti að vera kunnugt, fela þær í sér tíu manna samkomubann en helstu tíðindi þá voru að sund- og baðstöðum var heimilt að opna á ný fyrir allt að 50 prósent af leyfilegum hámarksfjölda staðanna en eigendum líkamsræktarstöðva var áfram gert að hafa lokað.