Fótbolti

Munu Barcelona og Juventus skiptast á leikmönnum?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verða þessir tveir liðsfélagar á næstu leiktíð?
Verða þessir tveir liðsfélagar á næstu leiktíð? EPA-EFE/ALBERTO ESTEVEZ

Talið er að kórónufaraldurinn muni hafa mikil áhrif á kaup og sölur leikmanna í knattspyrnuheiminum í sumar. 

Svo virðist sem stórliðin Barcelona og Juventus hafi fundið farsæla lausn á hvernig má tækla það vandamál að hafa minna fé á milli handanna, þau ætla einfaldlega að skiptast á leikmönnum. Allavega ef eitthvað er að marka frétt vefmiðilsins Goal.

Samkvæmt frétt þeirra hefur Fabio Paratici, yfirmaður knattspyrnumála hjá Juventus, staðfest að félagið eigi í viðræðum við Börsunga um leikmannaskipti. Juventus myndi senda Bosníumanninn Miralem Pjanić til Katalóníu á meðan ítalska félagið fengi í staðinn hinn brasilíska Arthur.

„Við erum í viðræðum við Börsunga sem og önnur stórlið. Þetta verður áhugavert sumar þar sem við munum þurfa nýjar hugmyndir,“ sagði Paratici í viðtali við Sky Sports á Ítalíu.

Maurizio Sarri, þjálfari Juventus, ku vera mikill aðdáandi brasilíska miðjumannsins sem vill þó helst vera um kyrrt í Barcelona. 

Talið er að spænska félagið sé opið fyrir tilboðum í nær alla leikmenn sína fyrir utan lykilmenn á borð við Lionel Messi. Vill félagið safna fjármunum til að geta fjárfest í Lautaro Martinez, framherja Inter, og stórstjörnunni Neymar sem lék með Börsungum við góðan orðstír áður en hann hélt til Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×