Markaðsvirði rafbílaframleiðandans Teslu hrundi um fjórtán milljarða dollara eftir að Elon Musk, stofnandi fyrirtækisins, tísti um að hlutabréfaverðið væru orðið of hátt í röð furðulegra tísta. Hegðun auðjöfursins hefur þótt óstöðug undanfarin misseri.
Musk hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarna daga, ekki síst í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Þannig tísti hann í vikunni um að „frelsa“ þyrfti Bandaríkin frá aðgerðum sem eiga að hefta útbreiðslu faraldursins. Áður hafði hann spáð því að faraldurinn yrði algerlega um garð genginn þegar apríl væri liðinn.
Samfélagsmiðlabunan hélt áfram í dag og tísti Musk meðal annars nokkrum ljóðlínum úr þjóðsöng Bandaríkjanna. Áður hafði hann tjáð sig um hlutabréfaverð í Teslu.
„Hlutabréfaverð Teslu er of hátt að mínu mati,“ tísti Musk.
Tesla stock price is too high imo
— Elon Musk (@elonmusk) May 1, 2020
Það var eins og við manninn mælt, hlutabréfaverðið lækkað hratt. Við lokun markaða hafði virði Teslu rýrnað um fjórtán milljarða dollara, jafnvirði um tvö þúsund milljarða króna. Breska ríkisútvarpið BBC segir að virði hlutabréfa Musk sjálfs hafi lækkað um þrjá milljarða dollara, jafnvirði um 438 milljarða íslenskra króna.
Musk var gert að greiða tuttugu milljóna dollara sekt, jafnvirði tæpra þriggja milljarða króna, þegar hann tísti um að hann ætlaði sér að taka Teslu af hlutabréfamarkaði árið 2018. Honum var jafnframt gert að láta lögfræðinga fara yfir allar færslur á samfélagsmiðlum fyrir fram og stíga til hliðar sem stjórnarformaður Teslu í þrjú ár.
Segist ætla að selja flestar veraldlegar eigur sínar
Hugleiðingar um hlutabréfaverð var ekki það eina sem Musk sendi frá sér á Twitter í dag. Hann fylgdi því tísti eftir með því að fullyrða að hann ætlaði sér að selja nær allar veraldlegar eigur sínar, þar á meðal húsið sitt. Svaraði hann því tísti skömmu síðar með því að kærastan hans væri núna reið út í hann.
I am selling almost all physical possessions. Will own no house.
— Elon Musk (@elonmusk) May 1, 2020
Hegðun Musk, ekki síst á samfélagsmiðlum, virðist hafa orðið æ óstöðugri undanfarin misseri. Hann var sýknaður af kæru um meiðyrði eftir að hann kallaði kafara sem tjáði sig um björgun taílenskra drengja sem sátu fastir í helli árið 2018 „barnaníðing“ án frekari rökstuðnings.
Í kórónuveirufaraldrinum hefur Musk haldið samsæriskenningum að fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum. Í gær vændi hann yfirvöld um lygar með því að rekja dauða allra þeirra sem greinast með Covid-19 til veirunnar. Hann hefur einnig talað eindregið fyrir því að takmörkunum vegna faraldursins, sem hann líkir við fasisma, verði felldar niður og starfsemi fyrirtækja leyfð á ný.
Notandamynd Musk á Twitter hefur einnig vakið athygli. Hún kemur úr tölvuleiknum „Deux Ex“ þar sem óprúttnir aðilar notfæra sér banvænan faraldur til þess að hafa stjórn á almenning.
Annað fyrirtæki Musk, SpaceX, hlaut samning við bandarísku geimvísindastofnunina NASA um að smíða geimferju sem á að geta flutt menn til tunglsins í gær. Auk SpaceX samdi NASA við Blue Origins, geimferðafyrirtæki Jeff Bezos, stofnanda Amazon, og fyrirtækið Dynetics um smíði á nýju geimferjunum.