Mannréttindasamtök fordæma Nayib Bukele, forseta El Salvador, vegna mynda sem hann birti af hundruðum fanga sem höfðu verið strípaðir niður á nærbuxurnar og látnir sitja þétt upp við hver annan. Bukele sagði meðferðina hluta af refsingu fanganna fyrir morðöldu um helgina.
Fleiri en fimmtíu manns voru myrtir í El Salvador um helgina og sakaði Bukele forseti glæpagengi um að notfæra sér að öryggissveitir væru uppteknar vegna kórónuveirufaraldursins. Tilkynnti forsetinn um hertar aðgerðir í fangelsum landsins, þar sem hann sagði að mörg morðanna hefur verið skipulögð.
Félagar í glæpagengjum voru settir í einangrun í fangelsum og Bukele skipaði fyrir um að félagar í mismunandi gengjum yrðu látnir deila fangaklefum til að rjúfa samskiptaleiðir innan gengja innan veggja fangelsanna. Þá heimilaði forsetinn lögreglu og hernum að skjóta meinta glæpamenn til bana ef þörf krefði.
Vitni sem Reuters-fréttastofan hefur rætt við sáu verkamenn sjóða málmplötur yfir hurðir á fangaklefum.
„Héðan í frá verða allir klefar með glæpagengjum innsiglaðir. Þeir munu ekki lengur geta séð út úr klefanum. Þetta mun koma í veg fyrir að þeir noti tákn til að hafa samskipti út á ganginn. Þeir verða inni, í myrkrinu, með vinum sínum úr öðrum gengjum,“ sagði Bukele um helgina.

„Niðurlægjandi og niðrandi“
Myndir sem forsetinn birti af hundruðum hálfnaktra fanga um helgina stangast þó á við aðgerðir ríkisstjórnar hans til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins með félagsforðun og sóttkví.
Erika Guevara, yfirmaður Mannréttindavaktarinnar í Ameríkunum, segir myndirnar áhyggjuefni.
„Við lítum mjög alvarlega á þessar myndir sem eru teknar af fólki sem er svipt frelsi sínu í fangelsum, þetta eru aðstæður þar sem fólk er leitt saman í fangelsisgörðum á niðurlægjandi og niðrandi hátt,“ segir Guevara.
Bukele hefur áður virt hæstaréttardóma um að honum beri að virða stjórnarskrá landsins að vettugi og beitt hernum fyrir sig til að hóta þinginu. Forsetinn hefur vísað allri gagnrýni á bug með þeim rökum að honum beri skylda til að vernda landsmenn og sakað forvera sína í embætti um spillingu.
José Miguel Vivanco, forstjóri Mannréttindavaktarinnar í Ameríkunum, segir að hætta sé á að El Salvador verði að valdboðsríki ef heimsveldin láta ekki til sín taka.
„Við höfum skyldu til að tryggja að El Salvador verði ekki að öðru einræðisríki,“ segir Vivanco við Reuters-fréttastofuna.
Hvorki Bandaríkjastjórn né Evrópusambandið hafa andmælt mannréttindabrotum í El Salvador. Mannréttindavaktin hefur skorað á Samtök Ameríkuríkja að virkja lýðræðissáttmála Ameríkuríkja í El Salvador. Það er aðeins gert þegar Ameríkuríki er talið hafa vikið af braut lýðræðis.