Félagsmálaráðherra segir að aðgerðir í húsnæðismálum og til að tryggja heimilin í landinu verði kynnt í næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Hann reiknar með því að allt að tuttugu og fimm prósent vinnumarkaðarins komi, með einum eða örðum hætti, inn í atvinnuleysisbótakerfið þegar mest verður.
Félags- og heilbrigðismál áberandi í aðgerðunum sem kynntar voru í gær en gagnrýni á annan aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar kemur úr öllum áttum. Stjórnarandstaðan átti von á að stærri skref yrðu tekin og atvinnulífið taldi að meira yrði gert til að tryggja rekstur fyrirtækja.

Aðgerðirnar munu koma í skrefum
„Í báðum þessum pökkum sem kynntir voru í gær eru aðgerðir fyrir fyrirtækin. Núna var það fyrir smærri fyrirtækin. Það er líka alveg ljóst að sú aðgerð sem við fórum í til þess að bæði verja hagsmuni launamanna og fyrirtækja með hlutabótaleiðinni, það var hugsað til þess að ná að brúa þetta bil. Við höfum líka sagt að það muni kalla á endurskoðun á því vegna þess að það sé að lengja í þessu. Það úrræði er þegar orðið miklu stærra heldur en að gert var ráð fyrir,“ segir Ásmundur.
Gert er ráð fyrir að atvinnuleysistryggingasjóður fari að minnsta kosti 70 milljarða fram úr fjárlögum þessa árs. Félagsmálaráðherra reiknar með því að á milli 20-25% af vinnumarkaðinum sé með einum eða öðrum hætti í tengslum við atvinnuleysisbótakerfið þegar mest verður.

Hlutabótaleiðin til skoðunar
Hlutabótaleiðin sem stjórnvöld settu á í mars gildir til loka maímánaðar. Ljóst sé að ekki muni öll fyrirtæki ráða við að hafa starfsmenn í 25% starfshlutfalli þegar tekjustreymi er lítið sem ekkert og að þannig verði það áfram.
„Ég ítreka það að þessi leið átti að renna sitt skeið í lok maí og við munum koma með tillögur að því með hvaða hætti gerðar verði breytingar á henni og hvort eða hvernig henni verður framhaldið svona í kringum mánaðamótin,“ segir Ásmundur.

Ekkert minnst á heimilin í öðrum aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar
Í þrjátíu og sex síðna kynningu sem fylgdi með aðgerðarpakkastjórnvalda í gær kemur hvergi fyrir með hvaða hætti stjórnvöld hyggjast styðja við rekstur heimila í landinu.
„Það var ekki inni í þessum pakka núna. Við gerum ráð fyrir því að eftir því sem atvinnuleysi dregst á langinn þá muni þurfa frekari aðgerðir fyrir húsnæðismál og fyrir heimili. Við erum að vinna í því og forma það dag frá degi. Það er alveg ljóst að við munum koma með aðgerðir enda er fullkomlega eðlilegt, og ég er algjörlega sammála því að það er mikilvægt að verja heimilin með saman hætti og við erum að verja fyrirtækin,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.