Raunverulegur fjöldi þeirra sem hafa látist í Frakklandi af völdum kórónuveirunnar er mun hærri en opinberar tölur gefa til kynna. Þetta segir Frederic Valletoux, sem er í forsvari fyrir samtök franskra spítala.
Að hans sögn er skýringin sú að tölfræðin sem frönsk stjórnvöld uppfæri daglega taki einungis til þeirra sem láti lífið inni á spítölum og ekki þeirra sem deyi í heimahúsum eða á hjúkrunarheimilum.
„Við vitum einungis um tölurnar sem spítalarnir veita. Aukningin sem við sjáum í opinberum gögnum er nú þegar stórfelld en hinar raunverulegu tölur myndu án vafa vera mun hærri ef við tækjum saman það sem er að gerast á hjúkrunarheimilum og það fólk sem lætur lífið á heimili sínu,“ sagði Valletoux á frönsku útvarpsstöðinni France Info.
1.102 hafa nú látið lífið í Frakklandi vegna COVID-19 sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur og eru yfir 22 þúsund staðfest smit í landinu.
Miðpunktur faraldursins í Frakklandi er í Grand Est héraðinu þar sem flestir hafa látið lífið vegna veirunnar í Evrópu á eftir Ítalíu og Spán.