Rafíþróttir, eða E-sports, njóta mikilla vinsælda þessa dagana og þá sérstaklega þar sem íþróttum í raunheiminum hefur nær öllum verið frestað ótímabundið vegna COVID-19.
Kristján Einar Kristjánsson er í forsvari fyrir rafíþróttir á Íslandi og var hann í viðtali hjá Kjartani Atla Kjartanssyni í Sportið í dag, í gær, sem er nýr íþróttaþáttur í umsjón Kjartans og Henry Birgis Gunnarssonar.
Viðtalið við Kristján Einar má sjá í spilaranum hér að neðan en þar fer hann yfir víðan völl. Hann vildi þó lítið ræða leik þeirra Kjartans í hinum sívinsæla fótboltatölvuleik FIFA en Kjartan vann leikinn 2-0.
Kristján Einar sérhæfir sig persónulega í akstursleikjum og ættu unnendur Formúlu 1 hér á landi að kannast við kauða en hann hefur lýst Formúlu 1 á Stöð 2 Sport undanfarin sex ár.
„Þetta er að verða með stærstu afþreyingu í heimi og við erum að sjá milljónir fylgjast með í þessum stærstu leikjum,“ segir Kristján Einar um vinsældir raf íþrótta á heimsvísu.
„Það voru 170 þúsund manns á staðnum á heimsmeistaramótinu í Counter-Strike í fyrra,“ segir Kristján einnig en Counter-Strike er fyrstu persónu skotleikur sem margir Íslendingar þekkja mæta vel. Íþróttaleikir eru hins vegar sífellt að verða vinsælir, sérstaklega þar sem skortur er á íþróttum í raunheimum.