Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, virðist eiga í einhverjum erfiðleikum með að ákveða hvað kalla skuli næsta Evrópumót karla, nú þegar ákveðið hefur verið að flytja mótið um eitt ár.
Á Twitter-síðu UEFA birtist í kvöld tilkynning um að mótið skyldi áfram kallað EM 2020. Það kom ýmsum spánskt fyrir sjónir enda á mótið núna að fara fram sumarið 2021 en það er ein afleiðing útbreiðslu kórónuveirunnar. Stuttu síðar barst önnur tilkynning frá UEFA, þar sem beðist var afsökunar á fyrra tísti og það sagt hafa verið sent út fyrir mistök. Ekki væri búið að taka neina ákvörðun um heiti mótsins.
With apologies for the earlier error, to be clear no decision has yet been made on the name of the rearranged EURO to be held in 2021.
— UEFA (@UEFA) March 20, 2020
The earlier tweet was sent by mistake.
EM kvenna átti að fara fram sumarið 2021 en óvissa ríkir nú um það og er talið að mótið verði sömuleiðis fært um eitt ár, til 2022. Norska knattspyrnusambandið hefur þó sent UEFA erindi þar sem því er mótmælt og vill að bæði mótin fari fram 2021.
Á Íslandi hefur næsta Evrópumót karla af ýmsum verið kallað „EM alls staðar“, og það er kannski best við hæfi enda stendur enn til að mótið fari fram í 12 löndum víðs vegar um Evrópu.