Fótbolti

Byrjun fótboltatímabilsins frestað fram í miðjan maí

Sindri Sverrisson skrifar
Íslandsmeistarar KR áttu að mæta Val 22. apríl í fyrsta leik Pepsi Max-deildar karla.
Íslandsmeistarar KR áttu að mæta Val 22. apríl í fyrsta leik Pepsi Max-deildar karla. Vísir/Bára

Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum í dag að fresta byrjun Íslandsmótsins og bikarkeppninnar í fótbolta. Nú er áætlað að keppni í þessum mótum hefjist um miðjan maí.

Samkvæmt tilkynningu á vef KSÍ verður staðan endurmetin í apríl þegar frekari upplýsingar liggja fyrir varðandi samkomubann vegna kórónuveirunnar. Það markmið að hefja fótboltasumarið um miðjan maí veltur á því að samkomubanninu ljúki um miðjan apríl. Ný niðurröðun leikja í mótunum verður gefin út eins fljótt og við verður komið.

Stjórn KSÍ samþykkti einnig að keppni í Lengjubikarnum 2020 teldist lokið og að ekki yrðu krýndir meistarar. Þá hefur Meistarakeppni KSÍ verið frestað og mögulegt er að keppnin verði felld niður.

Til stóð að Valur og KR myndu mætast í fyrsta leik Pepsi Max-deildar karla eftir mánuð, eða 22. apríl, og að sömu félög myndu hefja Pepsi Max-deild kvenna með leik 30. apríl. Bikarkeppni karla átti að hefjast 8. apríl og bikarkeppni kvenna 29. apríl.


Tengdar fréttir

Tveir Víkingar í sóttkví

Tveir leikmenn karlaliðs Víkings R. í fótbolta fóru í sóttkví í dag en þetta staðfesti Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri félagsins, við mbl.is í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×