Um 34 þúsund íbúar borgarinnar fóru í mótefnaskimun og kom í ljós að af þeim höfðu 4,43 prósent þeirra smitast.
Um ellefu milljónir manna búa í Wuhan en opinberar tölur þar segja að einungis 50.354 hafi í raun smitast. Séu niðurstöður mótefnaskimunarinnar færðar yfir á alla íbúa borgarinnar, áætla sérfræðingar Sóttvarnastofnunar Kína að nærri því hálf milljón hafi mögulega smitast.
Sagt er frá þessari rannsókn í frétt CNN. Þar segir að sambærilegar skimanir í öðrum borgum Hubeihéraðs hafi sýnt fram á að mun færri hafi smitast þar.
Í skjölum Sóttvarnastofnunar Kína sem hafði verið lekið til CNN kemur fram að raunverulegum fjölda smitaðra var í raun leynt. Lægri tölur hafi verið gefnar opinberlega en raunverulegar upplýsingar stofnunarinnar hafi sagt til um.
Þá hefur verið gripið til harðra aðgerða gegn fólki sem reyndi að dreifa upplýsingum um hvað var að gerast í Wuhan þegar borginni var svo gott sem lokað á sínum tíma.
Þann 23. janúar voru allar samgöngur til og frá Wuhan stöðvaðar auk þess sem almenningssamgöngum innan borgarinnar var lokað. Fyrirtækjum var lokað og íbúum borgarinnar gert að halda til á heimilum sínum.
Þannig var ástandið í 76 daga.
Sóttvarnastofnun Kína segir niðurstöður rannsóknarinnar sem sagt er frá hér að ofan til marks um að þessar aðgerðir hafi borið árangur. Veiran hafi að mestu verið einangruð í Wuhan og hafi náð lítilli dreifingu annarsstaðar í Kína.