Ef íbúi fer út þarf hann að fara í sóttkví í 5 daga á heimilinu þar sem hann hyggst dvelja og þarf svo að fara í skimun og fá neikvæða niðurstöðu áður en hann getur fengið heimild til að koma aftur inn á hjúkrunarheimilið.
Þetta kemur fram í erindi sem Hrafnista sendi á íbúa og aðstandendur.
„Við biðlum til ættingja að leggja eigin hagsmuni til hliðar fyrir hagsmuni heildarinnar,“ segir í upphafi bréfsins. Þar segir að ljóst sé að jólahátíðin verði ekki með hefðubundnu sniði í ár en allt verði gert til að gera hana sem hátíðlegasta og notalegasta fyrir íbúa.
„Sóttvarnaryfirvöld hafa lagt ríka áherslu á að við „höldum þetta út“ og búum til okkar eigin „jólakúlu/jólavini“, þar sem einstaklingar velji sér þá sem þeim finnst mikilvægast að hafa samskipti við um hátíðarnar. Þetta þurfum við á Hrafnistu einnig að hafa í huga. Því miður verður því ekki hægt að bjóða maka eða öðrum ættingjum að borða með íbúanum á aðfangadagskvöld eða hina jóladagana. Það sama á við um gamlársdag og nýársdag,“ segir í bréfinu.
Þar segir einnig að tveir gestir megi heimsækja hvern íbúa aðfangadag, jóladag og annan í jólum; sömu tveir gestir þessa þrjá daga. Þá megi börn undir 18 ára koma í heimsókn en þá teljist þeir annar af þessum tveimur gestum.
Allir þurfi að bera andlitsgrímu en taugrímur séu óheimilar. Heimilt sé að fara með íbúa út í göngutúr en ekki í bíltúr eða heimsóknir annað.