Sem kunnugt er lét Jón Þór af störfum sem þjálfari kvennalandsliðsins vegna uppákomu eftir leikinn gegn Ungverjalandi fyrir tveimur vikum þar sem Ísland fagnaði því að vera komið á EM 2022. Jón Þór sagðist hafa farið yfir strikið í samtölum sínum við leikmenn landsliðsins er hann var undir áhrifum og hafi í kjölfarið glatað trausti leikmannanna. Hann hafi því ákveðið að hætta.
Borghildur var með í ferðinni til Ungverjalands en hún er varaformaður KSÍ og formaður landsliðsnefndar kvenna. Nokkuð hefur verið rætt um ábyrgð hennar í málinu en það var til að mynda ekki tekið fyrir á stjórnarfundi nokkrum dögum eftir leikinn í Ungverjalandi.
Rætt var um uppákomuna í Ungverjalandi á stjórnarfundi KSÍ á fimmtudaginn. Í skýrslu fundarins kemur fram að hvorki Borghildur né starfsfólk landsliðsins beri ábyrgð í þessu máli. Það hafi sinnt sínu starfi af fagmennsku í ferðinni.
„Eftir greinargóða yfirferð á málinu er stjórn einhuga og sammála um að varaformaður sambandsins, Borghildur Sigurðardóttir sem og starfsmenn A landsliðs kvenna, hafi sinnt starfi sínu í ferðinni og eftir hana af fagmennsku og beri á engan hátt ábyrgð á hegðun þjálfarans,“ segir í fundargerðinni.
Þar kemur einnig fram að rætt hafi verið um upplýsingagjöf innan stjórnar KSÍ og hvaða lærdóm stjórnin hægt sé að draga af málinu.