Ummæli Raiola birtust síðastliðinn mánudag, skömmu eftir að Pogba hafði átt stóran þátt í endurkomu liðsins gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni og skömmu fyrir mikilvægan leik liðsins gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu.
Man Utd tapaði leiknum gegn RB Leipzig en Pogba átti góða innkomu af bekknum.
Franski miðjumaðurinn litríki var svo í byrjunarliði Man Utd í dag þegar liðið gerði markalaust jafntefli gegn Man City en Pogba þótti eiga góðan leik. Í kjölfarið hlóð Pogba inn færslu á Instagram reikning sinn en færsluna má sjá neðst í fréttinni.
„Ég hef alltaf og mun alltaf berjast fyrir Manchester United, liðsfélaga mína og stuðningsmennina. Allt kjaftæðið (e.Bla bla) skiptir ekki máli,“ segir Pogba.
„Framtíðin er langt í burtu og dagurinn í dag er það sem skiptir máli. Ég er 1000% einbeittur. Það hefur alltaf verið allt á hreinu milli mín og félagsins og það mun aldrei breytast.“